Grímsvatnagos - nóvember 2004
Magnús Tumi Guðmundsson

Yfirlit:
Rannsóknir síðustu ára og áratuga hafa byggt upp þá þekkingu sem gerir okkur kleift að skilja hegðun Grímsvatna. Frumherjar Jöklarannsóknafélagsins með Sigurð Þórarinsson í broddi fylkingar hófu að fylgjast reglubundið með vatnshæð Grímsvatna árið 1953. Botn Grímsvatna var kortlagður á 9. áratugnum og í allnokkur ár hefur svæðið verið kortlagt árlega með DGPS mælingum. Ýmsar jarðeðlisfræðilegar mælingar hafa varpað ljósi á byggingu Grímsvatna og afmarkað kvikuhólf á nokkurra kílómetra dýpi undir meginöskjunni. 

Skálar Jöklarannsóknafélagsins á Grímsfjalli skipta höfuðmáli fyrir þessar rannsóknir og eru þær að mestu unnar í vorferðum félagsins. Sjálfboðaliðar þess gegna lykilhlutverki í samvinnu við mælinga- og vísindamenn Jarðvísindastofnunar Háskólans (áður Raunvísindastofnunar og Norrænu Eldfjallastöðvarinnar), Landsvirkjunar, Veðurstofunnar og Orkustofnunar (nú Veðurstofan). Þetta gildir m.a. um GPS mælingarnar sem sýnt hafa þenslu kvikuhólfsins og mælingarnar sem sýna aukningu í jarðhita undanfarin misseri. Í skálum JÖRFÍ eru hýstir jarðskjálftamælar Jarðvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofunnar. Vegagerðin hefur um langan tíma stutt við rannsóknir á svæðinu.

Skálar Jöklarannsóknafélagsins eru þau hús sem hæst standa á Íslandi. Ekki er víst að þeir fái að standa til eilífðar á barmi virkustu öskju Íslands, Grímsvötnin gætu tekið þá í einhverju gosinu. En þangað til hýsa þeir eina sérstæðustu rannsóknastöð landsins.

Gosannáll:

7.11.2004 kl. 12:00
Úr flugvél á leið til Egilsstaða sást til Grímsvatna og var þar allt með kyrrum kjörum, enginn mökkur. Ef veður helst mun flugvél Flugmálastjórnar fara til að kanna svæðið eftir hádegið.

                 kl. 18.00
Grímsvatnagosi er lokið. Engin virkni var í gígnum í dag og líklegt er að gosinu hafi lokið á föstudagskvöld eða snemma á laugardag þegar ekki er lengur unnt að greina óróa frá bakgrunnsgildum á línuriti Veðurstofunnar. Goslok verður skoðað betur á næstu dögum. 

Vatn rennur ennþá meðfram Grímsfjalli að norðan og fossinn svipaður og á föstudag sem sýnir að vatnsborð hefur ekki breyst síðan þá. Mælingar voru gerðar í dag úr flugvél Flugmálastjórnar og þegar niðurstaða þeirra er ljós sést hvort Grímsvötn hafa sigið frá því síðast var mælt á fimmtudag. Svo er að sjá að sírennsli sé komið úr Grímsvötnum niður til Skeiðarár.

Ný sigdæld með sprungum sást sunnan við Grímsvatnaskarð (ónákvæm hnit 64° 24', 17° 12,5'). Dældin er 10-20 m djúp og a.m.k. 500 m í þvermál. Rétt er að ferðamenn fari ekki á Grímsfjall á næstunni úr austri nema í góðu skyggni. Leið á Grímsfjall úr austri liggur í jaðri dældarinnar eins og hún er nú. Ekkert er á þessari stundu vitað um hvort þessi dæld hefur náð fullri stærð.

Ekki er vitað hvenær dældin varð til en líklegt er að það hafi orðið snemma í gosinu.

6.11.2004 kl. 15:00
Engar fréttir hafa komið af gosinu í dag og óvíst hvort það vakir ennþá. Ferðamenn sem komu að gígnum í fyrradag segja gjóskuna 2-3 m þykka nokkur hundruð metra vestan við ketilinn. 

Vesturjaðar öskugeirans er mjög skarpur því ofan Vatnshamars, aðeins 2-3 km norðvestan við gíginn sést aska ekki í hjólförum. Engir fóru að skálunum en þar hefur öskufall varla verið mikið. Þykkasta gjóskan er ofaní Grímsvötnum vestanverðum, en þangað yfir lagði gosmökkinn fyrstu
tvo sólarhingana.
c Í flugi með vél Flugmálastjórnar á fimmtudaginn var hæð íshellu Grímsvatna mæld. Unnið var úr mælingunum í gær. Hæðin reyndist um 1405 m sem þýðir að vatnsborð Grímsvatna var 1375-1380 m. Í Grímsvötnum hafa því verið eftir um 0.2 km3 vatns. Það vatn rennur nú út með Gríðarhorni eins og sást á myndum í gær. Þarna sáust því upptök Skeiðarár í fyrsta sinn með berum augum.

5.11.2004 kl. 10:00
Til gossins sást úr flugvél á leið til Sauðárkróks frá Reykjavík fyrir 20 mínútum. Gufumökkur reis u.þ.b. 2000 fet yfir gostaðnum lengst af, þó kom hlé í 5-6 mínútur. Órói á mælum er nú nánast enginn.

                 kl. 18:00
Gott skyggni var á gosstöðvunum og nokkrar flugvélar fóru þar yfir. Gufumökkurinn fer enn minnkandi en smávegis aska berst enn nokkra tugi metra í loft upp. Gosið virðist í dauðateygjunum.
Í sigkatlinum í suðvesturhorninu er nú komin eyja, þ.e. gígur með barma upp úr vatni. Annar gígur, að mestu óvirkur er vestar og liggja þeir á A-V línu. 
Með norðurhlíð Grímsfjalls sést vatn renna á kafla, í djúpri rás uppvið fjallið. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta sést í Grímsvötnum, hingað til hefur allt vatnsrennsli verið undir jökli.

4.11.2004 kl. 10:30
Dregið hefur úr gosinu í nótt samkvæmt óróamælingum. Flugvélar eru á leið á svæðið. Áformað er eftirlitsflug með vél Flugmálastjórnar eftir hádegið en þá eru mestar líkur á góðu skyggni. 

                  kl. 11.30
Ferðamenn á Háubungu mega vart mæla fyrir hrifningu, segja vá í öðru hverju orði. Myndarlegt gos í gangi

                  kl. 19.00
Í flugferðum yfir Grímsvötn í dag sást vel að stórlega hefur dregið úr gosinu frá því á þriðjudag. Stöðugur gosmökkur stígur 1,5-2 km upp fyrir gíginn í SV-horni Grímsvatna, og leggur hann til ASA undan sterkum vindi. Mökkurinn er ljós og lítil aska í honum. Engar sýnilegar sprengingar eru í gígnum. Litlar ályktanir er þó hægt að draga af því, þar sem við sáum gíginn aðeins 1-2 mínútur í senn. Í flugi í morgun sáust sprengingar á 5-6 mínútna fresti. 

Sæmilega sást til ketilsins austan Eystri Svíahnúks, þar sem dálítið af gosefnum hafði komið upp snemma í gosinu. Nú lagði enga gufu upp úr honum eins og var á þriðjudag. Sprungur sáust austan þessa ketils en nánari staðsetning og útbreiðsla er óviss. Þær gætu náð að leið á Grímsfjall úr austri en betra skyggni þarf til að ganga úr skugga um þetta.

Eftirfarandi upplýsingar fengust um færð á jöklinum í dag:
Gott færi er inn í Jökulheima. Menn hafa verið að fara beint frá skála að jökli með Nýjafelli, áin djúp en góð að öðru leyti. Jökullinn er ber upp í 1000 m hæð. Frá 1000 m og að 1100 m eru krapapyttir og þræðingar. Þar fyrir ofan er frekar þungt færi og óslétt.


3.11.2004:

Í dag er skýjað á svæðinu og engar fregnir borist af ástandinu á gosstöðvunum. Jarðskjálftamælar sýna að órói hefur minnkað heldur frá því í gær en að gosið er enn í fullum gangi þó eitthvað hafi dregið úr því. Gosmökkur sést ekki á ratsjá Veðurstofunnar sem bendir til þess að hann sé lægri en 8 km. Skeiðarárhlaup fjarar nú hratt og er rennslið um 1000 m3/s fyrri hluta dags. Vatnamælingar áætla að 0,5 km3 hafi runnið fram í hlaupinu. Vonast er til að hægt verði að fljúga yfir gosstöðvarnar á morgun og kanna ástandið.

2.11.2004:
Gosórói hefur verið á mælum, öskufalls orðið vart á Norðausturlandi og gosmökkur mælist allt að 13 km hár á ratsjá Veðurstofunnar. Grímsvatnahlaup vex hratt. Því er flugvél Flugmálastjórnar send í loftið fyrir birtingu að finna gosstaðinn og kanna aðstæður. Skýjahula liggur yfir jöklinum en mökkurinn rís í 9 km hæð um kl. 8 þegar vélin kemur á svæðið. Lítið sést niður en þó er hægt að staðsetja gosstöðina í suðvesturhorni Grímsvatna. Hnit gígsins eru:
64° 23,9'N og 17° 23,5'V   kort
Þar gýs á stuttri sprungu úr djúpum katli girtum lóðréttum ísveggjum. Er gosstaðurinn 6 km vestur af skálum Jöklarannsóknafélagsins á Eystri Svíahnúk og ætti þeim ekki að vera hætt í gosinu. Síðdegis er aftur farið í flug. Nú er mökkurinn mun illúðlegri en um morguninn, teygir sig sem svartur veggur svo langt sem séð verður til norðurs. Ketillinn er rúmlega 1 km á vídd og fer heldur stækkandi. Skyggni er ekki sem best yfir austurhluta Grímsvatna. Þó sést að umbrot hafa orðið í Grímsvatnaskarði þar sem lítið gos hefur komið upp úr sigkatli (64°24,75'N, 17°13,85'). Gufumökk leggur upp úr katlinum sem er ílangur austur-vestur. Sprungur gætu leynst víða austan við vötnin en skyggni er lítið niður. Skeiðarárhlaup er í hámarki, yfir 3000 m3/s samkvæmt Vatnamælingum Orkustofnunar. Nokkurt hlaupvatn er einnig í Gígjukvísl og e.t.v. líka í Súlu. Gosmökkur nær 12-14 km hæð samkvæmt ratsjá Veðurstofunnar.

1.11.2004:
Grímsvatnahlaup hefur staðið í nokkra daga. Vatnsborð Grímsvatna hefur sigið um 15-20 m. Þrír jarðskjálftar urðu í Grímsvötnum um morguninn og margir bjuggust við gosi þá og þegar. Ástæðan var sú að nú fór saman hár kvikuþrýstingur og Grímsvatnahlaup. Við hlaup úr vötnunum lækkar vatnsborð og þar með fargið ofaná kvikuhólfinu. Sé kvikuhólfið nálægt brotmörkum getur vatnsborðslækkunin dugað til þess að hólfið bresti, kvika leiti til yfirborðs og gos hefjist. Þetta er talið hafa gerst 1922, 1934 og margoft á 19. öld. Það kom því engum á óvart þegar gosið hófst í kjölfar ákafrar skjálftahrinu um kl. 22. Marka má upphaf gossins af því að jarðskjálftar hætta en stöðugur órói hefst (vefsíða Veðurstofunnar). Gosmökkur sést á ratsjá Veðurstofunnar kl. 23.10. Ekki er ljóst hvar gosstöðin er en talið líklegast að hún sé innan Grímsvatna.


myndir á síðu MTG

Almannavarnir
Earth Observatory-gervihnattamyndir